Sólvangur
Hestamiðstöðin Sólvangur er staðsett á móti Eyrarbakka í aðeins 60 km fjarlægð frá Reykjavík og 10 km fjarlægð frá Selfossi. Á Sólvangi búa þau hjónin Elsa Magnúsdóttir og Pjetur N. Pjetursson, ásamt dótturinni Sigríði Pjetursdóttur og Grétari Matthíassyni en þau eiga dæturnar Bertu Sóley og Elsu Kristínu.
Aðstaða til hestaiðkunar er mjög góð á Sólvangi og er þar m.a. stórt hesthús, reiðskemma, hringvöllur, skeiðvöllur og reiðgerði. Góðar reiðleiðir eru í nágrenninu m.a. annars um fjörur Eyrarbakka. |
Hestar til sölu, þjálfun, tamning og reiðkennsla
Á Sólvangi er ávallt úrval söluhrossa tilbúin til sýningar en einnig er tekið á móti hrossum í tamningu og þjálfun. Þar að auki er boðið upp á ráðgjöf varðandi kaup og sölu hrossa og fjölbreytta afþreyingamöguleika tengda íslenska hestinum, s.s. sérsniðnar hestaferðir, sýningar og aðrar uppákomur. Reiðkennsla er stunduð allt árið um kring við allra hæfi sjá frekar hér.
|
Ræktun
Á Sólvangi hefur farið fram ræktun hrossa frá árinu 2001 en einnig er þar unnið að kynbótum á fé og hænum. Hrossaræktin er þó umfangsmest og er stefnan að rækta fasmikil, falleg, hreingeng og hágeng hross með gott geðslag. 8-10 hryssum er haldið ár hvert og hafa þær flestar verið sýndar í kynbótadómi eða hafa sannað sig á öðrum sviðum, en þar má m.a. nefna fyrstu verðlauna Orradóttirina Steinvöru frá Nautabúi og klárhryssuna Flugu frá Breiðabólstað. Einungis er haldið undir hátt dæmda stóðhesta. Nokkur hross hafa nú þegar farið í dóm og má þar m.a. nefna klárhryssuna Sylgju frá Sólvangi sem hlaut góð fyrstu verðlaun, þar af 9 fyrir tölt og vilja og geðslag og hinn fagra fyrstu verðlauna stóðhest Flögra frá Sólvangi sem hlaut hvorki meira né minna en 8.68 fyrir byggingu og 9 fyrir hægt tölt, stökk og 8.5 fyrir tölt, brokk, fegurð í reið og vilja.
|